Stórkostlegur Guð

SÍÐARA  ALMENNA  BRÉF  PÉTURS

 Kveðja


1
1Símon Pétur, þjónn og postuli Jesú Krists, heilsar þeim, sem hlotið hafa hina sömu dýrmætu trú og vér fyrir réttlæti Guðs vors og frelsara vors Jesú Krists. 2Náð og friður margfaldist yður til handa með þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum.


Hluttakendur í guðlegu eðli 3Hans guðdómlegi máttur hefur veitt oss allt, sem leiðir til lífs og guðrækni með þekkingunni á honum, sem kallaði oss með sinni eigin dýrð og dáð. 4Með því hefur hann veitt oss hin dýrmætu og háleitu fyrirheit, til þess að þér fyrir þau skylduð verða hluttakendur í guðlegu eðli, er þér hafið komist undan spillingunni í heiminum, sem girndin veldur.  petursstigi_814805.png

 5Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu, 6í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, 7í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika.

 8Því ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.

9En sá, sem ekki hefur þetta til að bera, er blindur í skammsýni sinni og hefur gleymt hreinsun fyrri synda sinna.  10Kostið þess vegna því fremur kapps um, bræður, að gjöra köllun yðar og útvalning vissa.

Ef þér gjörið þetta, munuð þér aldrei hrasa. 11Á þann hátt mun yður ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins vors og frelsara Jesú Krists. 12Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna yður á þetta, enda þótt þér vitið það og séuð staðfastir orðnir í þeim sannleika, sem þér nú hafið öðlast. 13Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda yður vakandi með því að rifja þetta upp fyrir yður. 14Ég veit, að þess mun skammt að bíða, að tjaldbúð minni verði svipt.

Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér. 15Og ég vil einnig leggja kapp á, að þér ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa. 
 
Sjónarvottar að hátign hans 16Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans. 17Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á."

18Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga. 19Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar. 20Vitið það umfram allt, að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. 21Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.


Falsspámenn 2


1En falsspámenn komu einnig upp meðal lýðsins. Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar, er smeygja munu inn háskalegum villukenningum og jafnvel afneita herra sínum, sem keypti þá, og leiða yfir sig sjálfa bráða glötun. 2Margir munu fylgja ólifnaði þeirra, og sakir þeirra mun vegi sannleikans verða hallmælt. 3Af ágirnd munu þeir með uppspunnum orðum hafa yður að féþúfu. En dómurinn yfir þeim er löngu felldur og fyrnist ekki og glötun þeirra blundar ekki.

4Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins. 5Ekki þyrmdi hann hinum forna heimi, en varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu. 6Hann brenndi borgirnar Sódómu og Gómorru til ösku og dæmdi þær til eyðingar og setti þær til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega. 7En hann frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu. 8Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði.

 9Þannig veit Drottinn, hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags, 10einkum þá, sem í breytni sinni stjórnast af saurlífisfýsn og fyrirlíta drottinvald. Þessir fífldjörfu sjálfbirgingar skirrast ekki við að lastmæla tignum. 11Jafnvel englarnir, sem eru þeim meiri að mætti og valdi, fara ekki með guðlast, þegar þeir ákæra þá hjá Drottni. 12Þessir menn eru eins og skynlausar skepnur, sem eru fæddar til að veiðast og tortímast.

Þeir lastmæla því, sem þeir þekkja ekki, og munu þess vegna í spillingu sinni undir lok líða 13og bera þannig úr býtum laun ranglætis. Þeir hafa yndi af að svalla um miðjan dag. Þeir eru skömm og smán, þegar þeir neyta máltíða með yður og svalla. 14Augu þeirra eru full hórdóms, og þeim verður ekki frá syndinni haldið. Þeir fleka óstyrkar sálir, hjarta þeirra hefur tamið sér ágirnd. Það er bölvun yfir þeim. 15Þeir hafa farið af rétta veginum og lent í villu. Þeir fara sömu leið og Bíleam, sonur Bósors, sem elskaði ranglætislaun. 16En hann fékk ádrepu fyrir glæp sinn. Mállaus eykurinn talaði mannamál og aftraði fásinnu spámannsins.

17Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri, þeirra bíður dýpsta myrkur. 18Þeir láta klingja drembileg hégómaorð og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá, sem fyrir skömmu hafa sloppið frá þeim, sem ganga í villu. 19Þeir heita þeim frelsi, þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar, því að sérhver verður þræll þess, sem hann hefur beðið ósigur fyrir.

20Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra. 21Því að betra hefði þeim verið að hafa ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið. 22Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: "Hundur snýr aftur til spýju sinnar," og: "Þvegið svín veltir sér í sama saur."


Dagur Drottins 3


1Þetta er nú annað bréfið, sem ég skrifa yður, þér elskaðir, og í þeim báðum hef ég reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá yður. 2Það reyni ég með því að rifja upp fyrir yður þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara, er postular yðar hafa flutt.

 3Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum 4og segja með spotti: "Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar." 5Viljandi gleyma þeir því, að himnar voru til forðum og jörð til orðin af vatni og upp úr vatni fyrir orð Guðs. 6Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst. 7En þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.

8En þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.

9Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.

10En dagur Drottins mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. 11Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, 12þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags, en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. 13En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr. 14Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.

15Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði. Þetta er það, sem hinn elskaði bróðir vor, Páll, hefur ritað yður, eftir þeirri speki, sem honum er gefin. 16Það gjörir hann líka í öllum bréfum sínum, hann talar í þeim um þetta. En í þeim er sumt þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum, sjálfum sér til tortímingar. 17Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar.

18Vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists. Honum sé dýrðin nú og til eilífðardags. Amen.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband